140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:27]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni málefnalega og góða ræðu. Ég hjó eftir því að honum varð sérstaklega tíðrætt um atvinnuvegaráðuneytið og hafði uppi allnokkrar áhyggjur af því hvernig þeim málum yrði skipað. Ég deili þeim áhyggjum með hv. þingmanni. Það kemur hins vegar ágætlega fram í greinargerð sem liggur fyrir með þeirri þingsályktunartillögu sem hér er til umræðu að þar er reynt að styðja þær breytingar sem lagðar eru til með þeim hætti að telja lesandanum trú um að markmið þessara breytinga sé að gera stjórnsýsluna öflugri og skilvirkari en áður hefur verið. Af því tilefni væri ágætt að eiga skoðanaskipti við hv. þm. Sigurð Inga Jóhannsson um það, í ljósi reynslu hans af umsýslan í tilteknum þáttum í landbúnaðarráðuneytinu sérstaklega, hvar veikustu punktarnir væru í núverandi fyrirkomulagi og hvar hv. þingmaður teldi að þær breytingar sem hér eru lagðar til muni koma fram. Hvert er í grunninn mat hv. þingmanns, í ljósi þeirra upplýsinga sem hann dró fram í sinni ræðu, á þeim tillögum sem hér liggja fyrir til bóta — ef einhverjar eru til bóta — á þeim tillögum sem hér liggja fyrir um þetta svokallaða auðlindaráðuneyti? Það væri fróðlegt að heyra það, ekki síst í ljósi þeirrar reynslu sem hv. þingmaður býr yfir af samskiptum við meðal annars það ágæta ráðuneyti sem fer með landbúnaðarmál í landinu og hefur gert á undanförnum árum.