140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég neyðist til þess að vekja enn og aftur athygli á því samt að um mjög vandaða undirbúningsvinnu er að ræða sem við horfum hér á afraksturinn af. Ég hlýt að minna hv. þingmann á að árið 2010 ákvað meiri hlutinn í allsherjarnefnd að lengri undirbúningstíma þyrfti vegna samráðs. Vísað var til umsagna og áherslna hagsmunasamtaka, að það þyrfti lengri tíma og betri undirbúning hvað varðaði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið annars vegar og umhverfis- og auðlindaráðuneytið hins vegar. Þessu var frestað og farið í mjög viðamikla vinnu sem meðal annars fól í sér 15 fundi með fulltrúum 19 hagsmunaaðila og við erum með mjög vandaða og ítarlega greiningarvinnu fyrir framan okkur. Hv. þingmaður getur ekki hunsað þetta og látið eins og ekkert sé.

En vegna þess að hann er mikill áhugamaður um vandaðan undirbúning af þessu tagi hlýt ég að spyrja, og vísa til viðamikilla breytinga sem fóru fram á Stjórnarráðinu á árinu 2007. Á hálfum mánuði, frá 31. maí til 13. júní, var því breytt á þann veg að félagsmálaráðuneytið tók yfir tryggingamálin, Hagstofan var flutt, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytin voru sameinuð og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið var klofið upp. Ég hlýt að spyrja hv. þingmann hvort umsagnir hafi verið mjög margar við breytingar á þeim lögum sem þá voru til umfjöllunar, hver hafi verið formaður allsherjarnefndar og framsögumaður nefndarálitsins sem hér var kynnt á kannski hálfri annarri síðu og hvort mikil greiningarvinna hafi legið þar fyrir.

Ég fullyrði að hér er um mjög vandaðan, óvenjulega vandaðan, undirbúning að (Forseti hringir.) ræða miðað við það sem hefur sést hér áður. Þessi ríkisstjórn og hæstv. forsætisráðherra á heiður skilinn fyrir að hafa stjórnað því.