140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:36]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef hv. þm. Álfheiður Ingadóttir heldur að ég ætli að koma hér upp í pontu og fara að verja störf Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks vorið 2007 (Gripið fram í.) veit ég ekki til hvers hv. þingmaður ætlast af mér, ég er alveg laus við það.

Hv. þingmaður segir að hér sé sérstaklega vandað til verka og því vil ég spyrja hvernig hún svari þeirri gagnrýni sem fram kom hjá fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, hv. þm. Árna Páli Árnasyni, sem segir að þetta sé verst unna plagg um breytingar á Stjórnarráðinu sem hann hafi séð. Hvernig svarar hv. þingmaður því? Það væri nær að ræða það við hann en við mig sem kosinn var hér inn árið 2009. Ég hef ekki komið nálægt þeim breytingum sem hv. þingmaður er að vísa til, hvorki á árinu 2007 né þeim sex breytingum sem núverandi ríkisstjórn hefur gert á Stjórnarráðinu og hringlar í allt þetta kjörtímabil, allt fram til loka, og það án þess að ná um það víðtækri samstöðu til þess að breytingarnar skili einhverju.

Til hvers er verið að breyta uppsetningu á Stjórnarráðinu? Er það ekki til þess að stjórnsýslan verði skilvirkari? Það var það sem stóð í þingmannaskýrslunni, það stóð þar. En það mun aldrei skila neinum árangri. Það sem er verið að fjalla um á vorinu 2012 á að taka gildi um haustið og síðan ætlar ríkisstjórnin að sitja hér í nokkra mánuði. Það mun ekki skila nokkrum árangri og þegar ekki er víðtæk samstaða, vegna þess að ekki hefur farið fram nægileg umræða um málið, hvorki við aðra stjórnmálaflokka né úti í samfélaginu, er líklegast að við nýja ríkisstjórn verði þessu öllu breytt. Og hvar er þá skilvirknin? Hún er ekki nein.