140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:39]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef haldið því fram í umræðu um þessi stjórnarráðsmál að í upphafi kjörtímabils sé það fullkomlega eðlilegt að ný stjórn sem komi að verkum vilji breyta Stjórnarráðinu til að koma áherslum sínum fram, ég hef sagt það. Ef það var gert í upphafi ársins 2007, í upphafi nýs kjörtímabils, held ég að það hafi verið í lagi. Ég ætla ekki að dæma um vinnubrögðin, ég var ekki þar þá og ætla ekkert að taka þátt í þeirri fortíðar- og þráhyggju sem hv. þingmaður virðist vera haldinn.

Varðandi það að núverandi ríkisstjórn sitji hér í mörg ár (Gripið fram í.) til viðbótar ætla ég að vona allra hluta vegna, ekki síst þeirra einstaklinga sem nú sitja í ríkisstjórn, að þeir þurfi ekki að sitja við þá áþján að rembast við að reyna að stjórna landinu en hafa ekki til þess meiri getu en raun ber vitni, fyrir nú utan þjóðina sem ég held að bíði þess dags heitast að ríkisstjórnin fari frá.