140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:05]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef þetta á að vera í síðasta skipti sem löggjafinn hlutast til um uppröðun verkefna ráðuneyta og heiti ráðuneyta þá þarf að breyta lögum. (Gripið fram í.) Ríkisstjórnin lagði auðvitað upp með það. En til sátta lögðum við fram nokkrir hv. þingmenn, eins og ég kom inn á áðan, tillögu um að skiptingin kæmi inn í formi þingsályktunartillögu sem yrði rædd og afgreidd. Þess vegna erum við að ræða þetta yfirleitt, annars hefði verið búið að gera þetta. Næsta ríkisstjórn verður væntanlega að koma fram með frumvarp til að breyta lögunum og ná því í gegn og þá þarf væntanlega eitthvað að breytast í hinu pólitíska umhverfi til að það gerist. Það er svo merkilegt að oft virðast flokkar sveigja aðeins af leið eftir því hvort þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu. Við höfum séð ótrúlega mörg dæmi um það.

Okkur greinir á um þetta, virðulegi forseti. Ég tel að málið sé of seint fram komið og ekki eigi (Forseti hringir.) að gera breytingarnar af því að það er svo stutt í kosningar og líkur á því að næsta ríkisstjórn geri eitthvað annað en hér er boðað.