140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:10]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi aðstoðarráðherra er það þannig að þegar ráðuneytin stækka og verða öflugri fyrir vikið, getur verið mjög æskilegt að taka inn aðstoðarráðherra sem sinnir ákveðnum málaflokkum sérstaklega. Þá er viðkomandi stjórnarflokkur að leggja áherslu á slík mál. Þetta sjáum við á Norðurlöndunum og er mikið stundað og er að mínu mati frekar snjallt.

Þetta tengist líka svolítið hinni spurningunni um að taka inn ákveðinn fjölda aðstoðarmanna með ráðherra, sem fara síðan með honum þegar hann hverfur úr embætti. Það má eiginlega segja að við séum nánast með það fyrirkomulag í reynd í dag. Menn kalla það bara öðrum nöfnum. Menn ráða í verkefni fólk sem kemur inn í gegnum pólitískt bakland, oft með einhverja þekkingu inn í viðkomandi stjórnmálaflokki, og síðan þegar verkefnið er búið er það framlengt, það er kannski kallað eitthvað annað o.s.frv. Í reynd er þetta kerfi meira og minna komið á. Ég held að það sé eðlilegra að kalla (Forseti hringir.) hlutina bara réttum nöfnum og vera með fleiri aðstoðarmenn sem fara síðan um leið og ráðherrann.