140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:12]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er rétt, ég geri ekki miklar athugasemdir við efnislegt innihald málsins heldur aðallega við tímarammann. Ég tel jafnvel, fyrst þetta mál kemur fram svona seint, að ef löggjöfinni verður breytt megi skoða það að binda þessar breytingar, þetta frelsi ríkisstjórnarinnar til að gera þær, við fyrri hluta kjörtímabils. Ég tel að ekki sé æskilegt að gera svona breytingar svona seint á kjörtímabilinu, að minnsta kosti ekki ári fyrir kosningar.

Ég tel ekki að hlutirnir breytist svo hratt í samfélaginu að eðlilegt sé að gera svona breytingar rétt fyrir kosningar. Ég tel að þær eigi að gera í upphafi kjörtímabils þegar ríkisstjórn með nýja stefnuskrá, nýjan stjórnarsáttmála, tekur við. Það eigi að aðlaga ráðuneytin að því, en ég tel ekki eðlilegt að gera slíkar breytingar (Forseti hringir.) rétt fyrir kosningar í ljósi þeirrar áhættu að næsta ríkisstjórn geri eitthvað allt annað.