140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:18]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég hjó einnig eftir því hjá hv. þingmanni að hún léði máls á þeirri hugsun eða umræðu um aðstoðarmenn eða fleiri aðstoðarráðherra o.s.frv. Ég set sjálfur allnokkurn fyrirvara við þá hugsun í ljósi þess hver viðfangsefni Stjórnarráðsins eru. Ég er fremur hallari undir það að hafa þetta í minni einingum og ríkari ábyrgð á forstöðumanni hverju sinni, þ.e. ráðherra. Ég leyfi mér að kalla eftir því hvaða ávinning hv. þingmaður sér af því að ráða inn fleiri og fjölga þar með í stjórnarteyminu í viðkomandi ráðuneyti. Maður getur séð fyrir sér að ef við steypum saman ótal stofnunum í stærri einingar og fjölgum þar með bara yfirmönnum og ábyrgðinni, yrði stundum ákveðin skörun verkefna og boðleiðir yrðu lengri, heldur en ef yfirmaðurinn væri einn og línurnar beinni í ákvarðanatöku.