140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:19]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er á því að þetta hafi ekkert með forstöðumenn að gera. Auðvitað þurfa þeir alltaf að vera öflugir, þetta hefur ekkert með það að gera. Ég er ekki á því að aðstoðarráðherrar eða fleiri aðstoðarmenn muni flækja ferlið við að ná til ráðherra. Þvert á móti. Ég held að það geti einfaldað ferlið og ég held að það geti verið til aðstoðar fyrir ráðuneytin, bæði fyrir embættismenn ráðuneyta og þá sem eru í hagsmunatengslum við ráðuneytin úti í bæ, ef svo má að orði komast. Ég held að þetta geti einfaldað alla aðkomu að ráðherranum, þ.e. aðalráðherranum ef við getum orðað það þannig, og létt ákvarðanatöku. Það er rosalega slítandi fyrir embættismenn í ráðuneytum þegar þeir ná ekki góðu sambandi við ráðherrann í ráðuneyti sínu. Þeir þurfa jafnvel stundum að bíða svo vikum skiptir eftir ákvarðanatöku og eru á meðan í óvissu um hvert skuli stefna. Ég held að það að taka fleiri aðstoðarmenn inn eða aðstoðarráðherra geti létt ferlið og verði af því sparnaður (Forseti hringir.) og stjórnsýslan verði betri líka.