140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:41]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir framsögu hans. Þar sem viðkomandi þingmaður á sæti í fjárlaganefnd og ég hef verið varamaður þar þá langar mig til að spyrja hann hvað honum finnist um að þessi sameining feli ekki í sér neina hagræðingarkröfu fyrir ríkissjóð heldur er tiltekið sérstaklega í þingsályktunartillögunni að ekki eigi raunverulega að spara heldur bara sameina ráðuneyti.

Til að við áttum okkur á umfanginu á þeim stofnunum sem liggja að baki nýju atvinnuvegaráðuneyti þá eru í iðnaðarráðuneyti, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og umhverfisráðuneyti, sem verður umhverfis- og auðlindaráðuneyti, samtals 1.255 starfsmenn, þ.e. í ráðuneytum og undirstofnunum. Til dæmis er 131 starfsmaður á Veðurstofu Íslands. Hefði ekki verið skynsamlegt að gera gangskör að því að skoða hvernig hægt er að sameina (Forseti hringir.) undirstofnanir og fækka jafnframt í þeim til að spara fyrir ríkissjóð?