140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:48]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil andsvar þingmannsins þannig að ef menn vinna í sátt og samlyndi að breytingum sem eiga að standa lengi og allir standa saman að sé í lagi að vinna þær með þessum hætti. Það er auðvitað ekki gert hér. Það er gert í miklu ósætti við bæði stjórnarandstöðuna sem og ýmsa sem málin snúa að, ekki síst í stjórnsýslunni. Það er ekki upplýst hvaða stofnanir eiga að fara hingað og hverjar þangað. En ég staldra aðeins við þá staðreynd að þingmaðurinn nefndi að þetta gæti kostað allt að 500 millj. kr. bara í breytingarkostnaði á húsnæði og öðru slíku. Nú situr þingmaðurinn í fjárlaganefnd og ef rétt er að búið sé að skjóta á það að kostnaðurinn við þessa breytingu sé annaðhvort 125 eða 225 milljónir, munar 100 milljónum, þá rifja ég upp að fyrir 100 miljónir hefði verið hægt að gera ýmislegt í heilbrigðiskerfinu. Hvað finnst hv. þingmanni um þá forgangsröðun að vera að hræra í stjórnkerfinu á síðasta (Forseti hringir.) ári kjörtímabilsins í stað þess að nýta þá fjármuni á uppbyggilegri hátt að mínu viti, t.d. í velferðar- og heilbrigðiskerfinu?