140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:50]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður veit er mikil þörf fyrir alla fjármuni í dag á niðurskurðartímum, ekki síst í heilbrigðisþjónustunni, velferðarmálunum og löggæslunni. Það er auðvitað hægt að gera ýmislegt við þessa miklu peninga, það liggur alveg fyrir.

Ég fór yfir það áðan að þessar tvær breytingar á Stjórnarráðinu gætu kostað um 500 milljónir. Við vitum ekki hver kostnaðurinn verður við þessar breytingar. Hann er einhvers staðar á bilinu 125–225 milljónir og ég sagði í ræðu minni að ef ég bætti 25 milljónum við það, sem er ekki mikið miðað við það sem gerðist í áætlunum á undan, þá yrðum við komin með hálfan milljarð. Þess vegna reyndi ég að byggja ræðu mína upp þannig að ef þetta færi í gegnum þingið og yrði að veruleika fyndist mér mjög mikilvægt að við reyndum að vernda þessa fjármuni þannig að þeir færu ekki til spillis. Auðvitað ætti að vinna þetta í miklu meiri sátt og samstöðu til þess einmitt að forðast að henda peningum út um gluggann og hugsanlega mundi þetta ekki nýtast í upphafi næsta kjörtímabils (Forseti hringir.) vegna þess að þá mundi þáverandi hæstv. ríkisstjórn gera breytingar.