140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:51]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir að mörgu leyti mjög ágæta ræðu. Í henni sló hann tón sem ekki er algengur frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins (ÁJ: Mjög algengur.) í þessum ræðustól, því miður.

Ég er honum sammála þegar hann talar um að rétt sé að ráðherrar komi inn með sitt eigið kabínett og fari út með það þegar þeir fara úr ráðuneytum, en við skulum muna að það var enginn samhljómur um það í fyrra. Þess vegna varð sú leið ofan á sem við erum að fjalla um.

Ég vil leggja áherslu á það sem hv. þingmaður sagði líka um starfsmenn Stjórnarráðsins og vekja athygli á því sem segir í nefndaráliti meiri hlutans um afstöðu Ríkisendurskoðunar til undirbúnings þeirra breytinga sem urðu 1. janúar 2011. (Forseti hringir.) Ég vil líka nefna að formaður Starfsmannafélags Stjórnarráðsins kom á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og fór yfir reynsluna af því og (Forseti hringir.) hvernig á að læra af henni við þessar fyrirhuguðu breytingar sem ég tel mjög mikilvægar.