140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:55]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki í einnar mínútu andsvari farið í djúpa umræðu um sparnaðinn eða það sem gerðist við sameiningu ráðuneyta. Hv. þingmaður segir að það muni 100 milljónum á tillögunum. Niðurstaðan er sú, eins og ég fór yfir í ræðu minni, að fyrri breytingarnar kostuðu 243 milljónir. Í nefndarálitinu er gert ráð fyrir 125–225 milljónum og einhverra hluta vegna og bara reynslunnar, held ég, ættum við að geta sagt að þetta yrði alla vega 250 ef ekki 260 þannig að þá erum við komin með 500 millj. kr. kostnað. En það er líka furðulegt að vera að ræða það hér og að við vitum ekki í raun og veru hvað á að fara að gera en auðvitað fagna ég því sem kemur fram í áliti meiri hlutans að það þurfi að fara í nákvæmari kostnaðargreiningu.

Hvað varðar sameiningu velferðarráðuneytis og innanríkisráðuneytis þá vil ég benda á að einn af veikleikunum í fjárlögum fyrir árið 2011 og 2012 er 46 millj. kr. halli á aðalskrifstofu ráðuneytisins. Það er einn af veikleikunum í fjárlögunum. Ég get því miður ekki tekið þá umræðu (Forseti hringir.) í einnar mínútu andsvari en ég get gert það í heilli ræðu sem ég mun halda hér aftur.