140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:56]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir málefnalega og ágæta yfirferð áðan vegna þess að hann nálgaðist þetta mál á miklu breiðari grunni en umræðan hefur verið og mér fannst hann lyfta umræðunni svolítið á hærra plan varðandi það að skoða þetta út frá öðrum mælistikum en að heimurinn sé svartur eða hvítur eins og hann sagði sjálfur.

Ég vildi lýsa mig sammála því sem ég skynjaði og skildi að væru sjónarmið hans hvað það snertir að það sé eðlilegra að ekki sé verið að sníða ráðuneyti að heppilegri stærð varðandi umfang og getu ráðherra til að stýra því, heldur að efla frekar bakland, styrk og stöðu ráðherra til að stýra öflugu og vel mönnuðu ráðuneyti. Er það réttur skilningur?