140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:58]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, mér þykir gott að heyra að við erum samtóna í þessu atriði. Það er óskaplega þreytandi að upplifa það í hvert skipti sem einhverjar breytingar verða í stjórnsýslu að allt sem snýr að hagkvæmni stærðarinnar sé einhvern veginn talað niður í gólfið. Stóra umræðan snýst um það hvort aðstoðarmenn eru einn eða tveir eða hvort fjölgað hefur verið í einhverjum tilteknum aðstoðar- eða ráðgjafarstörfum, þegar það liggur fyrir að menn fara fram með breytingar til að mæta þörfum og óskum sem eru auðvitað breytilegar eftir því hvaða verkefnum stjórnvöld eru að sinna hverju sinni og að nýta í raun kosti þess að vera með vel mannað ráðuneyti sem ræður við þau verkefni sem því ber að sinna.