140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:24]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg klárt, morgunljóst, að Íslendingar hafa í þessum efnum hvorki sótt fyrirmyndir til Grænlendinga né Færeyinga. Grænlendingar hafa búið við það að Danir hafa reynt að troða inn á þá áratugum saman kerfi iðnaðarsamfélags. Færeyingar hafa setið í sömu súpu en hafa verið lunknari og komist fram hjá því að mörgu leyti og þess vegna standa Færeyingar að mörgu leyti vel sem þjóð sem er hamingjusöm, nægjusöm og dugmikil.

Það er engin spurning að æðioft í samfélagi okkar koma bæði embættismenn og stjórnmálamenn að utan með einhverja heilaga trú og segja: Þetta er alveg afskaplega gott og við þurfum að taka það upp. Við höfum öll reynslu af sænska skólakerfinu á sínum tíma sem fór allt úr böndunum hér og hentaði ekki Íslandi. Við erum enn þá að berjast við ákveðinn vanda í þeim efnum, til að mynda af hverju er svo gífurlegt brottfall úr menntaskólum landsins, nærri 40% á Íslandi, en það er ekki til í öðrum löndum. Það er af því að menn hafa ekki sniðið stakk að okkar vexti. Menn hafa snobbast upp á það að taka upp erlendar kenningar (Forseti hringir.) og reyna að fylgja þeim eftir.