140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:26]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Árni Johnsen kom inn á það í ræðu sinni að kannski lægi fyrirmyndin sunnar í álfunni og nefndi Brussel sem dæmi. Ég vil biðja hv. þingmann að koma aðeins hingað upp og útskýra það frekar. En ég vil bæta því við að mér fannst lítið til þess rökstuðnings koma að hér sé verið að taka upp norrænt kerfi þegar á Norðurlöndunum eru einmitt ýmist sérstök matvælaráðuneyti en annar atvinnurekstur, iðnaður, orkumál og ferðaþjónusta, er í öðrum sérráðuneytum. Menn eru auðvitað að búa til ráðuneyti utan um þær atvinnugreinar og þau störf sem eru í viðkomandi landi. Ég tek undir með hv. þingmanni að ég sé ekki fyrir mér að Færeyingar leggi niður sjávarútvegsráðuneytið enda lifa þeir af sjávarútvegi né heldur Grænlendingar, þeir mundu ekki vera með sérstakt ráðuneyti fyrir auðlindir, námuvinnslu og annað í þeim dúr. Það væri mjög sérkennilegt ef þeir tækju upp eitthvert kerfi eftir einhverjum öðrum.

Því vil ég ítrekað spyrja hv. þingmann, ef við erum greinilega ekki að taka upp norrænt kerfi þrátt fyrir að það hafi verið sagt, hvaðan hann telji að fyrirmyndin sé komin, og af hverju við séum að taka upp kerfi í stjórnarráðsskipuninni sem ég verð að segja, og tek þá undir með hv. þingmanni, að hentar ekki okkar vexti, ekki uppbyggingu okkar á atvinnulífi, ekki hagsmunum okkar, og hvort ekki sé eðlilegra að stjórnskipunin taki meira mið af þeim greinum sem eru í landinu.