140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:47]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé í sjálfu sér áhugavert fyrir þá kjósendur sem kusu Vinstri græna að heyra um fálæti ríkisstjórnarinnar gagnvart ýmsum hagsmunasamtökum sem þeir hafa sótt styrk sinn til. Ég held að Samfylkingin þurfi ekki að hafa áhyggjur af því, hún á líklega engin atkvæði hjá bændum, hefur aldrei átt og mun örugglega ekki eiga eftir þessa ríkisstjórn. (Gripið fram í.)

Ef hæstv. ríkisstjórn tekst að troða málinu í gegn, með þessum ótrúlegu aðferðum, liggur fyrir að við fáum mun valdameiri embættismenn en við höfum nokkurn tíma séð. Það vita allir að með þessari samþjöppun erum við að styrkja embættismannakerfið alveg gríðarlega. Þess vegna skiptir máli að við ræðum þessa reglu sem ég veit að ég og hv. þingmaður erum sammála um.