140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:54]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég heyri að hann er sammála mér um það að eðlilegast og skynsamlegast hefði verið að það hefði verið rætt hvar viðkomandi stofnanir ættu að vistast, undir hvaða ráðherra þær væru eftir sameiningu, þannig að það lægi bara fyrir og menn þyrftu ekki að vera að geta í eyðurnar um það. Það hefðu verið mun æskilegri vinnubrögð.

Við erum sammála um að við hræðumst það að ráðuneytin verði of stór. Mig langar að spyrja hv. þingmann um skoðun hans á því að farin yrði sú leið að skipa aðstoðarráðherra til að byrgja þann brunn. Fyndist hv. þingmanni það ekki skynsamlegt að menn tækju einhverja vitræna umræðu, en ekki svona yfirborðskenndar, um þau málefni?