140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:56]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Margt hefur núverandi ríkisstjórn gert sem er algjörlega úr takti við það sem Framsóknarflokkurinn hefur gert þegar hann hefur verið í ríkisstjórn, t.d. það að hafa fleiri konur í ríkisstjórninni en karla. Nú er fyrsta konan forsætisráðherra í sögu lýðveldisins og eins hefur ráðuneytum verið fækkað, ráðherrar teknir inn sem ekki voru þingmenn — margháttaðar breytingar sem hafa lukkast vel.

Nú er gripið til enn frekari breytinga og hv. þingmaður getur svo sem haft hvaða skoðun sem er á þeim og lýst þeim hér. En ég vil mótmæla því, sem fram kom í ræðu hv. þingmanns, að ráðherrar og þingmenn stjórnarmeirihlutans hafi verið að tala niður landbúnað og sjávarútveg. Hv. þingmaður verður að koma með rökstuðning fyrir slíkum fullyrðingum vegna þess að annars eru þær bara ómerkar og úr lausu lofti gripnar — ekki ósvipaðar þeirri fullyrðingu hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar að núverandi ríkisstjórn hefði unnið meiri skaða en varð í hruninu. Sú fullyrðing var skotin niður á flugi og gagnrýnd og ekki eingöngu af pólitískum andstæðingum hans. Umræða af þessu tagi þjónar engum tilgangi og ég vil einfaldlega mótmæla slíkum fullyrðingum eða biðja hv. þingmann um að koma með rökstuðning fyrir þessum alhæfingum sínum.

Hér er verið að laga stjórnsýsluna að nútímaháttum, gera hana sveigjanlegri. Hingað til hefur það verið þannig að það eru tugir starfsmanna sem sinna landbúnaði og sjávarútvegi innan Stjórnarráðsins. Til dæmis er einungis einn starfsmaður sem sinnir ferðaþjónustu. Er hv. þingmaður kannski þeirrar skoðunar að íslenskt atvinnulíf eigi að laga sig að stjórnsýslunni á Íslandi frekar en að Stjórnarráðið og stjórnsýslan lagi sig að breyttum veruleika á þessu sviði?