140. löggjafarþing — 93. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[00:24]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson. Ég kannast við þessi ummæli og heyrði þau í þingsal. Ég segi hins vegar hiklaust: Ég er ekki sammála þeim. Ég get ekki fundið þeim stað miðað við þau gögn og þær upplýsingar sem meðal annars voru lagðar fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í þeirri vinnu sem við höfum verið í síðustu vikur við undirbúning þessa máls. Meðal annars liggur fyrir þessi ágæta skýrsla um skipan efnahags- og viðskiptamála sem er frá því í febrúar 2012. Þeir sem komu að þeirri yfirferð voru fyrrverandi viðskiptaráðherra Gylfi Magnússon, Sigurður H. Helgason ráðgjafi og Sigurður Snævarr, efnahagsráðgjafi forsætisráðherra. Þessi skýrsla fer mjög ítarlega yfir alla lykilþætti í þessu máli og sýnir það og sannar að vel hefur verið farið yfir þau atriði sem lúta að þessum þáttum sérstaklega.