140. löggjafarþing — 93. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[00:34]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, það er rétt sem hv. þm. Einar Guðfinnsson nefndi. Það var greinilega ekki mikil andstaða við það mál á sínum tíma þegar það var hér til umfjöllunar og afgreiðslu árið 2007. Ætli skýringin sé ekki sú að Sjálfstæðisflokkurinn hefur skipt um skoðun í þessum meginmálum frá því þá?

Eins og ég las hérna upp úr lagafrumvarpinu og því sem kom fram í nefndaráliti þá var boðuð sérstaklega enn frekari uppstokkun og breyting á stjórnskipaninni í þeim drögum og að þarna væri verið að stíga fyrstu skrefin. Ég heyri ekki betur á umræðunni, eins og hún hefur farið fram síðustu daga, en að menn séu nú fráhverfir slíkum breytingum og vilji helst halda núverandi skipulagi ráðuneyta óbreyttu.