140. löggjafarþing — 93. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[00:36]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að málið snúist um það, hv. þm. Einar Guðfinnsson, að munurinn á því sem er að gerast í dag og því sem gerðist fyrir fimm árum, árið 2007, er sá að árið 2007 talaði Sjálfstæðisflokkurinn fyrir þessu máli og hann talaði ekki bara fyrir því heldur talaði fyrir því með ofurhraða. En nú er Sjálfstæðisflokkurinn algjörlega búinn að skipta um gír og talar gegn málinu og leitar uppi öll rök, möguleg og ómöguleg, (EKG: Þú hefur ekki svarað …) til að finna því allt til foráttu. Það er engin samkvæmni í því hvernig flokkurinn hagar áherslum sínum í þessu máli. Hann skiptir bara um skoðun eftir því hvernig vindar blása. Það hentar Sjálfstæðisflokknum núna að vera á móti vegna þess að hann er ekki í ríkisstjórn og hann er á móti öllum þeim málum sem ríkisstjórnin fer fram með í þingsal (Gripið fram í: Nei!) það er alveg sama hvað þau heita og um hvað þau snúast, hann skal vera á móti [Kliður í þingsal.] (Forseti hringir.) þó að engin efnisleg rök séu til staðar. [Frammíköll í þingsal.]