140. löggjafarþing — 93. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[00:54]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þetta er búin að vera athyglisverð umræða. Mér þótti athyglisvert að hlusta á hv. þm. Magnús M. Norðdahl áðan, ég minnist þess ekki að hv. þingmaður hafi komið upp áður og lýst því yfir að hann væri heitur en einhvern tíma verður allt fyrst.

Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þm. Lúðvíki Geirssyni fyrir að minna okkur á 2007 og stjórnkerfisbreytingarnar þá. Ég held að ágætt væri að fara aðeins yfir það. Hv. þingmaður kom hér upp og sagði að menn séu ekki sjálfum sér samkvæmir ef þeir hafi verið sammála stjórnarráðsbreytingunum þá en ekki núna. Ég verð ég að viðurkenna, virðulegi forseti, að það get ég ekki skilið. Það er fullkomlega óskiljanleg röksemdafærsla.

Ég vek athygli á að þar var heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu skipt upp þannig að tryggingamálin fóru í félagsmálaráðuneytið. Með hvaða rökum var það gert? Ég held að hv. þingmaður geti fundið margar ræður frá hv. þingmönnum Samfylkingarinnar sem fóru yfir þau rök að í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið væru tveir ólíkir málaflokkar og það væri allt of mikið að hafa bæði heilbrigðis- og tryggingamálin á sama stað. Þess vegna væri nauðsynlegt að flytja tryggingamálin yfir í félagsmálaráðuneytið. Hver er nú ósamkvæmur sjálfum sér þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tekur sig til og sameinar þetta aftur? Þessu var sundrað vegna þess að þetta var of stórt, heilbrigðis- og tryggingamálin, og tryggingamálin færð yfir í félagsmálin og síðan er þetta sameinað í eitt ráðuneyti. Hver er ósamkvæmur sjálfum sér? Ætli það séu ekki hv. þingmenn Samfylkingarinnar? Ætli það sé ekki þannig, virðulegi forseti, ef menn skoða það og spyrja sig: Getum við lært af mistökunum? Voru mistök gerð þar? Já, án nokkurs vafa.

Hverjir pressuðu hvað mest á allar þessar breytingar? Svo sannarlega voru það hv. þingmenn Samfylkingarinnar og þeim lá mjög á. Ég er hjartanlega sammála því að skynsamlegt væri að fara yfir nákvæmlega þær breytingar sem voru gerðar þá til að meta hvort við getum ekki lært af því núna. Ég hvet hv. þm. Lúðvík Geirsson til að velta því fyrir sér.

En af því að hv. þm. Lúðvík Geirsson kemur hingað upp og segir að það séu engin efnisleg rök gegn þessum breytingum þá vil ég, með leyfi forseta, fara aðeins yfir nokkur atriði í ræðu eins hv. þingmanns sem talaði í þessu máli. Hann segir: Engin kostnaðargreining hefur verið sett fram um hver kostnaður verður af því að byggja upp þetta verkefni innan fjármálaráðuneytisins. Þá er hann að vísa til þess að ef efnahags- og viðskiptaráðuneytið var of lítið, hvað kostar þá að setja þann þátt sem augljóslega er ekki inni í fjármálaráðuneytinu núna inn í fjármálaráðuneytið? Kannski hv. þm. Lúðvík Geirsson, sem er í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, geti komið í andsvar — ég var bara því miður of seinn og komst ekki í andsvar við hann áðan — og upplýst okkur um það af því að hann segir að þetta sé vel vandað, hver er kostnaðurinn við að byggja þetta upp í fjármálaráðuneytinu? (Gripið fram í.) Það kemur hvergi fram í gögnum málsins, hvergi. (Gripið fram í.) Af því að það fóru fram hjá hv. þingmanni öll efnisleg rök gegn þessari breytingu.

Ég ætla að lesa aftur úr ræðu hv. þingmanns sem nefndi nokkur efnisleg rök að mínu áliti. Hann segir:

„Hverjir eru lærdómarnir af hruninu? Það er togstreitan milli Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans. Menn vildu ekki deila upplýsingum og áttu erfitt með það, að hluta til vegna þess að þeir heyrðu undir ólík ráðuneyti. Hér á að endurvekja það.“

Eru þetta ekki efnisleg rök? Hér segir sami hv. þingmaður:

„Hún gengur gegn tillögum Kaarlos Jännäris og það fáránlegasta af öllu er að hér er nýbúið að leggja fram ágæta skýrslu um framtíð fjármálamarkaðar og á grundvelli hennar er búið að skipa starfshóp þriggja sérfræðinga, þar á meðal Kaarlo Jännäri, til að fjalla um framtíðarumgjörðina, meðal annars um möguleika á breytingu á stofnanaumgjörðinni og möguleika á sameiningu Fjármálaeftirlits og Seðlabanka. En nú er bara ákveðið að slíta þetta allt í sundur að óathuguðu máli. Hvers konar vinnubrögð eru það þegar engin efnisleg röksemd er fyrir þessu sett?

Sú litla greining sem liggur fyrir og ég hef séð er örstutt skýrsla, sem varla er hægt að kalla skýrslu, frá þremur sérfræðingum. Þar er það greint að vissulega þurfi að auka framlög til efnahags- og viðskiptaráðuneytisins ef það eigi að geta unnið vinnuna sína. Hin leiðin sé að færa þetta yfir í fjármálaráðuneytið en sérstaklega er varað við því að slíta fjármálamarkaðinn frá efnahagsstjórninni og sagt að ókostirnir við þá leið séu meiri en kostirnir.“

Eru þetta ekki efnisleg rök? Hvað er þetta nákvæmlega þá. Síðan segir þingmaðurinn:

„Þvert á móti er gengið gegn grundvallarlærdómum af hruninu og verið að endurvekja togstreitu, hættu milli ólíkra eftirlitsstofnana sem fara með ólíka þætti sem saman verka til að auka áhættu í hagkerfinu.“

Ég mundi ætla, virðulegi forseti, að þetta væru efnisleg rök. Úr hvaða ræðu var ég að lesa? Jú, það var úr ræðu hv. þm. Árna Páls Árnasonar, fyrrverandi hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra. Hann fór líka aðeins í það og hann veifaði hér skjali — að vísu veifaði hann því ekki, en ég ætla að gera það — og þetta er samstarfsyfirlýsing ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Þar er sagt, með leyfi forseta, um stjórnkerfisumbætur að víðtækt samráð verði haft við starfsfólk, almenning og hagsmunaaðila og leitast við að skapa almennan skilning og samstöðu um nauðsyn þessara breytinga, og svo er haldið áfram og það er tekið sérstaklega fram að lögð sé áhersla á vandaðan undirbúning breytinga. Þegar farið er yfir Stjórnarráðið er fyrst tekið fram að í nýju efnahags- og viðskiptaráðuneyti verði almenn hagstjórn, lagaumgjörð og eftirlit með fjármálamarkaði, mat og þróun og horfum í efnahagsmálum. Enn fremur verði þar málefni er tengjast umgjörð íslensks viðskiptalífs.

Virðulegi forseti. Nú koma menn og hendast í það verkefni að breyta þessu öllu saman þvert á það sem þeir eru búnir að segja, þvert á það sem þeir eru búnir að lofa, þvert á það sem þeir eru búnir að setja í stjórnarsáttmálann. Ég ætla að fara betur yfir ýmsa aðra þætti í þessu þegar við höldum áfram að ræða þetta á morgun, en ég vek athygli á því af því af því að hér kom ekki bara hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, heldur líka hv. þm. Lúðvík Geirsson og talaði um hversu vel og vandlega þetta sé unnið. (Gripið fram í.) Ég vek athygli á því að þau eru að mæla með því, þessir hv. þingmenn, að við séum að útvista því verkefni sem menn hafa talið að væru verk þingsins, útvista þeim verkefnum. Þegar menn koma hér upp og veifa einhverjum gögnum, einhverjum skýrslum frá framkvæmdarvaldinu en hafa ekki farið í þá vinnu í þinginu, þá er verið að útvista verkefnum frá Alþingi til framkvæmdarvaldsins. Menn eru hreint og klárt að vinna, eins og einhver orðaði það, gott ef það var ekki hæstv. núverandi ráðherra Steingrímur J. Sigfússon, eins og Alþingi sé atkvæðavél fyrir framkvæmdarvaldið.

Virðulegi forseti. Ég hefði mjög gaman af því að ræða þetta áfram en ég tel skynsamlegra að fara betur í þetta á morgun þegar við höldum áfram því að þær fáu ræður stjórnarliða sem hér hafa verið fluttar kalla á enn frekari og ítarlegri umræðu um málið, því að þessar ræður hv. þingmanna, og þá er ég sérstaklega að vísa í ræðu hv. þm. Lúðvíks Geirssonar, afhjúpa í rauninni hversu illa þetta mál er undirbúið, illa undirbyggt, og við hljótum að kalla eftir svörum frá þessum aðilum. Ég vil þó nota tækifærið og þakka hv. þm. Lúðvíki Geirssyni fyrir að taka þátt í umræðunni. Það er auðvitað alveg til fyrirmyndar að það sjáist hér hv. stjórnarþingmaður sem tekur virkan þátt í umræðunni, en eðli málsins samkvæmt kalla orð hans og skýringar og lýsingar á frekari umræðu.