140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

störf þingsins.

[10:58]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Í gærkvöldi fengum við afar vandaða skýrslu um áhrif tveggja fiskveiðistjórnarfrumvarpa á sjávarútveginn, sjávarútvegsfyrirtækin og byggðirnar í landinu, og hún er sannkölluð svört skýrsla.

Í skýrslunni kemur fram að það sé merkileg stefna að veikja skattgrunna og hækka skattinn um leið, það sé ekki stefna sem sé til þess fallin að vera sjálfbær til framtíðar. Mikið hefur verið talað um áhrif þessara frumvarpa á sjávarútvegsfyrirtækin og ég ætla ekki að höggva í þann knérunn en ég ætla aðeins að gera það að umtalsefni að fyrir þessi frumvörp munu byggðirnar blæða.

Við sjáum til dæmis ef við tökum byggðarlög eins og Vestmannaeyjar. Í skýrslunni kemur fram að þar verði veiðigjaldið 3,5 milljarðar. Í Fjarðabyggð 2,5 milljarðar, í Ólafsfirði tæpar 700 millj. o.s.frv. Það er algerlega ljóst að ef þessi frumvörp verða að lögum munu þau veikja mjög byggðirnar í landinu, veikja þær gríðarlega og draga úr þeim máttinn. Það virðist sem allt niður í minnstu smáatriði í þessum tveimur frumvörpum séu hlutirnir vanhugsaðir. Það væri vit í því að sjávarútvegsráðherra drægi þessi ósköp til baka og fallið yrði frá þessari gríðarlegu veikingu á sjávarútvegsfyrirtækjunum og byggðunum í landinu.