140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

störf þingsins.

[11:03]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég held í ljósi ummæla síðasta ræðumanns, hv. þm. Björns Vals Gíslasonar, og þeirra upplýsinga sem komið hafa fram á vettvangi nefndarinnar, ættum við einmitt að ræða stöðu þessa frumvarps. Ég á ekki sæti í nefndinni en ég hef reynt að kynna mér þær umsagnir sem þangað hafa borist og við getum orðað það þannig að þar sé um að ræða mjög harða gagnrýni á bæði þau frumvörp sem hér um ræðir. Skýrslan sem kynnt var í gær bætir augljóslega miklu þar við. Það stendur ekki steinn yfir steini í þessari frumvarpssmíð og það er alveg augljóst að á þeim skamma tíma sem er til þingloka verður ekki hægt að endurbæta málið þannig að hægt sé að ljúka því. Það er augljóst að vinna þarf þetta mál frá grunni. Þetta eru ónýt frumvörp og hv. þingmenn í meiri hlutanum í atvinnuveganefnd og í meiri hlutanum í þinginu ættu að forgangsraða, setja til hliðar verkefni sem þeir munu fyrirsjáanlega ekki ná að klára og takast á hendur að vinna í þeim málum sem möguleiki er að ná sæmilegri sátt um og geta orðið til bóta fyrir heimili og atvinnulíf í landinu.