140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

störf þingsins.

[11:05]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þingsályktunartillaga um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráðinu hefur nú fengið ítarlega umræðu, hún fékk ítarlega umræðu í þingsal í gær og fram á nýliðna nótt og áður við fyrri umræðu. Samtals hafa þingmenn fjallað um þessa tillögu í um 20 klukkustundir eða nær heilan sólarhring og umræðu er langt í frá lokið og málið á dagskrá síðar í dag.

Málið hefur verið til meðferðar í þinginu í rúman mánuð, fengið góða umfjöllun í þingnefnd og fyrir liggja tvær ítarlegar skýrslur um efnisatriði tillögunnar og ítarlegt nefndarálit. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa farið mikinn í gagnrýni á fyrirliggjandi tillögu og nefnt meðal annars ónógan undirbúning málsins, takmarkaða umræðu, engar formlegar umsagnir og að málið sé keyrt í gegn. Í nefndaráliti fulltrúa flokksins segir meðal annars að þessi snöggsoðna málsmeðferð sé með öllu óviðunandi.

Vegna þessa er rétt að vekja athygli þingheims á því sem fram kom við umræðurnar um málið í gærkvöldi. Fyrir réttum fimm árum var á Alþingi lagt fram frumvarp um uppstokkun á ríkiskerfi og ráðuneytum. Það voru umfangsmiklar breytingar, en hvernig var staðið að undirbúningi og afgreiðslu frumvarpsins á þeim tíma? Jú, það liðu réttir 13 dagar frá því að frumvarpið var lagt fram þar til það var afgreitt sem lög. Heildarumræðan í þingsal stóð yfir í innan við þrjá klukkutíma. Svipaður fjöldi gesta mætti fyrir allsherjarnefnd og komu nú fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Engar umsagnir voru lagðar fyrir allsherjarnefnd og engar skýrslur, engar úttektir eða rannsóknir til að undirbyggja málið voru lagðar fram, ólíkt því sem nú hefur verið gert. Nefndarálit allsherjarnefndar var upp á liðlega eina blaðsíðu og þar var að finna alls eina setningu sem tók yfir lykilefni frumvarpsins, stjórnsýslubreytinguna sjálfa. Þetta var öll vinnan og allur undirbúningurinn. Framsögumaður allsherjarnefndar og framsögumaður málsins, sá sem stýrði nefndarvinnu og afgreiðslu málsins, var hv. þm. Birgir Ármannsson sem fór í gær hörðum orðum um vinnubrögð við afgreiðslu þeirrar þingsályktunartillögu sem nú liggur fyrir Alþingi. Óhætt er að segja að í þeirri umræðu hafi fjandinn hitt ömmu sína, sem stundum gerist.

En ég virði hv. þm. Birgi Ármannsson að verðleikum fyrir að segja skýrt við umræðurnar í nótt að vinnubrögðin fyrir réttum fimm árum hafi verið alls óviðunandi. (Forseti hringir.) Þar er sannarlega ólíku saman að jafna, vinnubrögðum þá og þeim vönduðu vinnubrögðum sem nú eru viðhöfð.