140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

störf þingsins.

[11:07]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Vegna þeirrar umræðu sem hér hefur átt sér stað um stöðuna í þinginu verða stjórnarþingmenn að líta sér nær og horfa til ríkisstjórnarinnar sem hefur enn einu sinni komið með á sjötta tug þingmála inn á síðasta framlagningardegi á þessu þingi. Það er meginástæðan fyrir því að við stöndum í þeim mikla vanda að vera með tug mála sem er ekki einu sinni búið að senda til nefndar. Það er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar en ekki stjórnarandstöðunnar. Fram hjá því verður ekki litið.

Síðan er auðvitað hlægilegt að hlusta á eitthvert óþol þó að rædd séu stór mál í einn dag, þó að mál sé rædd einu sinni fram á nótt og jafnvel þótt þau fari á dagskrá næsta dag. Það er hlægileg umræða í jafnstórum málum og eru hér undir. (Gripið fram í.) Það eru ekki nema 20 tímar, segir hv. þingmaður, sem búið er að verja í umræðu um stjórnarráðsmálið. Það er akkúrat helmingi lengri tími en hæstv. forsætisráðherra talaði á sínum tíma í einni ræðu. Það er reyndar þannig að forustumenn ríkisstjórnarinnar eiga ræðumetin á þessu þingi sem aldrei verða slegin. Það kemur því úr hörðustu átt þegar þau kvarta undan umræðu í þinginu.

Varðandi sjávarútvegsfrumvörpin sem hér hafa líka verið til umræðu undir störfum þingsins er stóra spurningin þessi: Hvernig ætlar sjávarútvegsráðherra að bregðast við þeirri umsögn að frumvarpið sem hann hefur lagt fram muni setja fjölda fyrirtækja í greininni í gjaldþrot, fjöldann allan af fyrirtækjum? Að hlusta svo á hv. þm. Björn Val koma hingað upp og segja að það séu stórmerkileg tíðindi hversu illa mörg fyrirtæki í sjávarútvegi standi í dag, er ótrúlegt. Þessi ríkisstjórn hefur verið með þessi mál á prjónunum í þrjú ár og að maður þurfi að sitja hér og hlusta á menn vera að átta sig á því í dag, þremur árum eftir að ríkisstjórnin (Forseti hringir.) tók við, hver staða greinarinnar er, en samt er alltaf komið með nýtt mál á hverju einasta ári, er algjörlega ótrúlegt. Það sýnir hvers konar fúsk hefur verið viðhaft við að endurskipuleggja umhverfi greinarinnar.