140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

lengd þingfundar.

[11:17]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Alþingi Íslendinga er enn á ný farið í þann ömurlega leikskólasandkassaleik sem viðgengist hefur í allt of langan tíma og sem þeir sem sitja á þingi hétu því að breyta fyrir síðustu kosningar en það hefur ekki tekist. Að stórum hluta er þetta vegna skipulagsleysis þingsins og vegna þess að mál eru allt of seint fram komin, það er alveg rétt, þannig er það bara. Málin eru allt of seint fram komin.

En það leysir ekki málin að tala á hverjum einasta degi um hvað þessi gerði í fyrra og hvað hinn gerði í hittiðfyrra, að þessi eigi met í þessu og að þetta hafi annar gert. Hvers konar fávitaháttur í vinnubrögðum er eiginlega í gangi? (Gripið fram í.) Það er bara asnalegt af þingmönnum að halda svona ræður, það er til háborinnar skammar.

Við höfum ekki verið fylgjandi því hingað til að hafa kvöldfundi vegna þess við teljum að það hafi verið málþófskeimur af umræðunum, þó ekki beinlínis málþóf, og við teljum að ekki eigi að afgreiða lög á nóttunni. En miðað við umræðuna í gær er ljóst að hér er í gangi málþóf og það er óboðlegt að vera með málþóf í gangi í máli sem skiptir almannaheill ekki sérstaklega miklu máli. Menn eiga þá frekar að taka þann pólinn í hæðina að stunda málþóf þegar kemur að (Forseti hringir.) fiskveiðistjórnarmálunum. Þess vegna munum við greiða atkvæði með kvöldfundi (Forseti hringir.) og ég legg til, frú forseti, að fundað verði út í eitt þangað til nefndafundir hefjast á mánudagsmorgun (Gripið fram í: Heyr, heyr.) til að klára mál.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir hv. þingmenn á að gæta orða sinna.)