140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

lengd þingfundar.

[11:21]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé kominn tími til að sýna þetta excel-skjal sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir talar svo mikið um í ræðustól. En hér koma menn og segja: Heill almennings er það sem skiptir máli. Erum við ekki öll sammála um það? Er þá ekki bara kominn tími á að við setjumst niður og forgangsröðum á þessum lista? Það sér hver maður sem skoðar dagskrána að hér er ekki verið að forgangsraða í þágu fólksins í landinu. Það er ekkert vandamál að setjast niður og raða þessu upp og taka þau mál sem snúa að fólkinu í landinu. Ég veit ekki til þess að það hvarfli að neinum hv. þingmanni stjórnarliðsins, þótt þeir eigi ýmislegt til, að halda því fram að uppstokkanir í Stjórnarráðinu enn og aftur séu gerðar fyrir fólkið í landinu, eins óundirbúið og það mál er nú, og vitna ég aftur í ræðu hv. þingmanna og fyrrverandi hæstv. ráðherra þessarar ríkisstjórnar máli mínu til stuðnings.

Virðulegi forseti. Við skulum endilega endurraða málum á dagskrá. Þannig er mál með vexti að ég þekki aðeins þetta húshitunarmál þannig að ég hvet hv. þm. Álfheiði Ingadóttur til að lesa það frumvarp áður en hún talar um það (Forseti hringir.) með þeim hætti sem hún gerir.