140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

lengd þingfundar.

[11:33]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég hafði eiginlega búist við því að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson brygðist við tillögu þingflokksformanns síns um að tefja nú ekki frekar mál þannig að hægt væri að afgreiða þetta litla raforkufrumvarp sem er til þess fallið að styrkja byggingu minni hitaveitna á fámennari stöðum og á köldum svæðum, þessi hv. þingmaður sem stundum kemur fram eins og hann sé eini þingmaður hinna köldu svæða. Þegar umræðu um þetta mál var slitið í miðju kafi á mánudaginn hafði þessi hv. þingmaður ekki aðeins talað í korter, hann var líka á mælendaskrá og þess vegna var ekki hægt að ljúka umræðunni. Annar þingmaður Sjálfstæðisflokksins var líka á mælendaskrá (Gripið fram í: Er það bannað?) og þess vegna var ekki hægt að ljúka umræðunni. (Gripið fram í: Er það bannað?) Það er ekki bannað, hv. þingmaður. Þetta er skýringin á því. Menn röðuðu sér á mælendaskrána til að koma í veg fyrir að þetta þarfa mál kæmist til nefndar. (Forseti hringir.) Þetta eru vinnubrögðin ykkar. (Gripið fram í: Má ég ekki tala?)