140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

lengd þingfundar.

[11:35]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er hreint með ólíkindum að hlusta á hv. þm. Álfheiði Ingadóttur og ég leyfi hennar ummælum að dæma sig sjálf. Á tyllidögum talaði þáverandi stjórnarandstöðuþingmaður, hæstv. núverandi forsætisráðherra, mikið um sjálfstæði þingsins, það væri mikilvægt að tryggja sjálfstæði Alþingis frá framkvæmdarvaldinu. Nú kemur þessi sami einstaklingur sem nú er oddviti og verkstjóri ríkisstjórnarinnar og hótar fólki að við verðum hér eins lengi og þurfi og virðir þar með sjálfstæði þingsins algjörlega að vettugi.

Starfsáætlun þingsins var samþykkt í forsætisnefnd þingsins, þar sem allir stjórnmálaflokkar eiga fulltrúa, í ágúst síðastliðnum eftir ítarlegar umræður á þeim vettvangi og á vettvangi þingflokksformanna. Þá get ég upplýst að á þeim fundum gerði ég athugasemdir við það af hverju (Forseti hringir.) ekki væri farið samkvæmt starfsáætlun inn í júnímánuð. Ríkisstjórnarflokkarnir ákváðu að hafa þetta svona og forseti Alþingis og ég ætla að styðja hæstv. forseta Alþingis í þeirri viðleitni (Forseti hringir.) að halda starfsáætlun. Ég held að Alþingi verði frekar gerður sómi með því en að sitja undir hótunum og fyrirmælum (Forseti hringir.) frá hæstv. forsætisráðherra.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir á tímamörk og biður þingmenn að virða þau.)