140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

lengd þingfundar.

[11:40]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég tek undir með því sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sagði áðan þegar hann gagnrýndi hæstv. forsætisráðherra fyrir það hvernig væri talað um þingið og þau orð sem væru notuð. Það er mjög alvarlegt að forsætisráðherra skuli horfa á þingið sem einhvers konar færibandaafgreiðslustofnun.

Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kom líka inn á að það væri alvanalegt að uppskera og mál kæmu inn á haustin og væru afgreidd á vorin, þetta væri þroskaferli og svo kæmi að uppskerutímanum. Þannig vill til að við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra erum báðir úr sveit og þekkjum þetta ferli mjög vel. Fyrst plægir maður, svo sáir maður, svo ber maður á, svo þarf rigningu, svo sprettur og svo uppsker maður um haustið. Það sem ríkisstjórn er að reyna að gera er að uppskera daginn eftir að það hefur verið sáð, eins og það að mál séu ekki send út til umsagnar. Það að senda mál til umsagnar er hluti af eðlilegu þroskaferli mála. (Gripið fram í.) Ég held að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ætti að gefa sér tíma, fara heim í sveitina (Forseti hringir.) og rifja aðeins betur upp landbúnaðarhugtökin, hvað þau bera með sér og rifja (Forseti hringir.) upp að það er ekki hægt að uppskera daginn eftir að sáð hefur verið.