140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

kreppa krónunnar.

[12:00]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Ég held að öllum sé ljóst að gengisfall íslensku krónunnar hefur heldur betur hjálpað til við endurreisn samfélagsins með því að styrkja útflutningsatvinnuvegina á síðustu missirum. Það komu margar góðar spurningar fram hjá hv. fyrirspyrjanda, Lilju Mósesdóttur og vil ég þakka fyrir þessa umræðu og einnig svör ráðherra. Ég held að það sé ljóst að við eigum fyrst og fremst við að etja skuldavanda í hagkerfinu sem við ræðum hér en ekki endilega krónuvanda. Við þurfum hins vegar skýra, trúverðuga stefnu um það hvernig við hröðum losun gjaldeyrishafta. Það er ákaflega mikilvægt. Það verður ekki trúverðug stefna meðan annar stjórnarflokkurinn, ráðherrar Samfylkingarinnar og ýmsir þingmenn, tala látlaust niður krónuna, það er einfaldlega þannig.

Varðandi snjóhengjuna verðum við að leysa þann vanda með þeim hætti sem hæstv. ráðherra benti á, þær þrjár leiðir sem þar eru mögulegar og samspil þeirra. Við verðum að leysa þetta án þess að fara leið Íra og breyta einkaskuldum í skuldir ríkis og skattborgara. Þar er 14,5% atvinnuleysi og viðvarandi kreppa næstu árin — með evru. Þannig er einfaldlega staðan.

Til lengri tíma er leið okkar Íslendinga sú að auka útflutningstekjur umfram innflutning og þrátt fyrir jákvæðan viðskiptajöfnuð þurfum við að bæta jákvæða niðurstöðu um 60–80 milljarða á ári til að standa undir útstreymi gjaldeyris vegna vaxta og afborgana. Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram áætlun, svokallað plan B í efnahags- og atvinnumálum, og þar fyrir utan að leysa skuldavanda heimila. Peningastefnu- og gengisstefnunefnd sem við framsóknarmenn áttum þátt í að koma á laggirnar er að kanna allar leiðir sem eru færar. Ég vil benda hæstv. ráðherra á að það sem við þurfum að gera og er ákaflega mikilvægt að við flýtum, lykilatriðið, (Forseti hringir.) er að bæta í þá stefnu sem Seðlabankinn hefur, það þarf skýra stefnu ríkisins til að fara hér í sókn í atvinnumálum og auka útflutningstekjur. (Forseti hringir.) Fyrr verður hagkerfið ekki trúverðugt og þar með íslenski gjaldmiðillinn.