140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

kreppa krónunnar.

[12:03]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég fagna þessari umræðu um kreppu krónunnar. Það er mjög brýnt að þessi mál séu rædd og ekki síðar en í dag og þó fyrr hefði verið. Við erum með óþolandi stöðu í gjaldmiðilsmálum, svokallaða snjóhengju, hún vex og vex og það er alveg greinilegt að leið Seðlabanka Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og ríkisstjórnarinnar virkar ekki.

Hér hafa verið ræddar þrjár lausnir, harðindaleið, upptaka evru og lán frá Evrópska seðlabankanum og skiptigengisleið með nýkrónu. Fjórða leiðin hefur líka verið í umræðunni undanfarið; einhliða upptaka annars gjaldmiðils gæti hugsanlega verið leið út úr þessum vanda. Það þýðir ekkert að koma í þessa umræðu í dag eins og þingmenn gera og segja: Ég hef efasemdir um þessa leið og ég hef efasemdir um þessa leið. Efasemdir þingmanna skipta engu máli í þessu. Þetta er einfaldlega bara tæknilegt úrlausnarefni þar sem sérfræðingar þurfa að leggja mat á hvað sé best og heppilegast fyrir Ísland og hvað sé ekki best og heppilegast fyrir Ísland. Efasemdir þingmanna í þingsal eiga ekki heima í þeirri umræðu. Þeir vita einfaldlega ekkert hver er besta leiðin, því þær hafa ekki verið skoðaðar nægilega vel og það er hneisa í þessu máli.

Það er ekki áhugi hjá ríkisstjórninni að leita nýrra leiða, það er einfaldlega svoleiðis. En engu að síður er þetta mesta efnahagsvandamálið sem við stöndum frammi fyrir, á eftir skuldum heimilanna og verðtryggingunni. Það er alvarlegt mál að ekki skuli vera skoðað með meiri afgerandi hætti hvaða fleiri leiðir eru út úr þessari krónukreppu. Það er ábyrgðarleysi af hálfu ríkisstjórnarinnar að hafa ekki fyrir löngu látið gera mjög ítarlega úttekt á öllum þeim möguleikum sem við stöndum frammi fyrir og viðurkenna að þessar froðueignir verða einfaldlega að (Forseti hringir.) skrifast niður. Það er ekki hægt að halda áfram inn í framtíðina (Forseti hringir.) með þær froðueignir á bakinu.