140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

kreppa krónunnar.

[12:12]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Tilrauninni með íslensku krónuna má nú heita lokið því reynsla okkar af henni er sú að hún hefur ekki skilað okkur neinum af þeim meginmarkmiðum sem þyrfti að ná með gjaldmiðli einnar þjóðar. Við höfum því miður í landsframleiðslu dregist mjög aftur úr nágrannalöndum okkar, þannig að ekki hefur hún hjálpað okkur við að skapa betri lífskjör en í löndunum í kringum okkur. Í öðru lagi hefur hún ekki skilað okkur lægra vaxtastigi sem er það sem almenningur og fyrirtæki mundu helst kalla eftir í einum gjaldmiðli, heldur hafa vextir hér verið hærri en þekkist í nokkru öðru landi í okkar heimsálfu. Í þriðja lagi hefur hún ekki skapað okkur stöðugleika vegna þess að hér hefur efnahagslegur óstöðugleiki einfaldlega verið meiri en þekkist almennt í löndunum í heimsálfu okkar.

Það hnígur þess vegna allt til hins sama, að sú mynt sem við höfum stuðst við dugi okkur ekki til þess að skapa okkur í fyrsta lagi þau lífskjör sem við viljum, í öðru lagi það verðlag á fjármagni sem við þurfum og í þriðja lagi þann stöðugleika sem fólk og fyrirtæki þurfa.

Hið raunhæfa svar við því vandamáli er auðvitað að vera fullur þátttakandi í annarri mynt. Það er sá leiðangur sem unnið er að í aðildarviðræðum við Evrópusambandið, að geta lagt í dóm þjóðarinnar hvort hún vill fara, en þangað til þurfum við að fást við þau verkefni sem uppi eru.

Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af því að staða krónunnar sé sú að við höfum þurft að banna útlendingum að fara úr landi með krónurnar sínar. Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af því að fólk vilji almennt lítið fjárfesta í löndum þar sem eru gjaldeyrishöft. Í þeirri umræðu er ástæða til að vara enn frekar við hugmyndum um nýkrónu sem er í sjálfu sér bara svona (Forseti hringir.) þjóðakennitöluflakk, (Gripið fram í.) því enn síður mundi fólk vilja leggja fé í hagkerfi og þjóðríki sem hefur ákveðið einhliða (Forseti hringir.) að skipta út eignum manna í gjaldeyrinum fyrir einhvern nýjan gjaldmiðil þegar það hentar.