140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

kreppa krónunnar.

[12:17]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég lauk máli mínu áðan á því að ræða um froðueignir og mikilvægi þess að stjórnvöld viðurkenni að þessar eignir eru froðueignir. Þær urðu ekki til í neinu eðlilegu ástandi. Það eru engin raunveruleg verðmæti að baki þeim heldur fyrirbæri eins og verðtrygging og gengisfelling og guð má vita hvað. Þessar froðueignir valda öllu hagkerfinu miklum vandræðum og það er mikill ágreiningur meðal annars í ríkisstjórninni um leiðir út úr þeim vandræðum. Á meðan gerist ekki neitt en nú eru liðin rúmlega þrjú árum frá kosningum. Það hefur leitt til þess að áfram ríkir vantraust á íslensku efnahagslífi og Íslandi almennt úti í heimi. Ekkert traust ríkir við núverandi aðstæður og það skiptir í rauninni ekki mjög miklu máli hvort gripið verði til mjög róttækra aðgerða til að leysa þetta mál því að það er ekkert traust nú til staðar sem farið getur forgörðum. Við getum ekki farið annað en upp á við með því að grípa til kjarkmikilla aðgerða.

Skuldir ríkisins, sveitarfélaga, fyrirtækja og heimila verða að lækka vegna þess að þessar skuldir eru froðueignir einhverra annarra, lífeyrissjóða, banka, kröfuhafa, erlendra aðila. Samsvarandi lækkun á þessum froðueignum verður að eiga sér stað ef menn ætla einhvern tímann að komast út úr þessum vanda.

Skiptigengisleiðin sem hv. málshefjandi hefur vakið máls á er róttæk en hún er líka skynsamleg og góð leið því að hún leysir allan þennan vanda. Það er skilvirkt að gera það þannig en til þess þarf kjark og þor og ekki má beita fyrir sér hræðslu við til dæmis Evrópusambandið eða fjármálaöfl annars staðar í heiminum, þetta er lífsspursmál fyrir Ísland. Við erum ekki bara að tala um tilraunina um krónuna sem liðin er undir lok, við erum að tala um (Forseti hringir.) hugsanlega tilraun um lýðveldið Ísland í framhaldinu.