140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

kreppa krónunnar.

[12:19]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmönnum fyrir góðar og málefnalegar umræður. Ég tek undir nauðsyn þess að fram fari vinna, sem verði líka í pólitískum ferli, við að finna leiðir sem tryggja að snjóhengjunni verði ekki breytt í skuldir skattgreiðenda og að með því verði tryggt að skattgreiðendur og þar með þjóðin búi við sjálfbæra skuldsetningu.

Ég óttast að þjóðin geri sér ekki grein fyrir því hvað staðan er alvarleg. Sterk hagsmunaöfl í þjóðfélaginu ætla að koma þúsund milljarða einkaskuld yfir á almenning með annaðhvort gengishruni krónunnar eða erlendu láni á okurvöxtum. Þjóðin virðist ekki átta sig á hagsmunabaráttunni og hallar sér að stjórnmálaflokkum sem klifa á nauðsyn þess að afnema höftin strax eða fá lán hjá Evrópska seðlabankanum. Spyrni þjóðin ekki við fótum eins og í Icesave-málinu verður framtíð barna okkar ekki lífvænleg.

Velferðarkerfið, sem tók áratugi að byggja upp, verður eyðilagt í þágu fjármagnseigenda. Við það hverfur réttlætið og mannúðin úr samfélagi okkar. Ég spyr: Hver vill búa í slíku samfélagi?

Aðeins víðtæk samstaða mun tryggja að allir geti lifað mannsæmandi lífi í landi sem auðugt er af mannauði og náttúruauðlindum. Ég skora á hvern og einn að líta í eigin barm og velta fyrir sér ábyrgð sinni á framtíðinni, framtíð sem enn er hægt að móta í þágu mannúðar og réttlætis.