140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[12:44]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vil gera athugasemd við eitt af því sem hann sagði og varðar ETS-kerfi loftslagsheimilda Evrópusambandsins sem við erum aðilar að.

Ég vil gera þá athugasemd og benda hv. þingmanni á að það er ekki auðlind í sjálfu sér, heldur er um að ræða kerfi til að innheimta gjald sem er reist á grunni mengunarbótareglunnar, sem er sú að sá greiðir sem mengar. Þetta er staðfest í reglunum að því leyti til að skylt er að tiltekinn hluti gjaldsins fari einmitt í að vinna gegn loftslagsbreytingum. Ég dreg ekki í efa að þetta á eftir að skila peningum en þetta er ekki auðlind eins og við skilgreinum hana, heldur gjald fyrir að menga og það er tvennt ólíkt.

Hv. þingmaður gerði mér upp orð og skoðanir í ræðu sinni sem mér þykir miður. Hann er ekki vanur að falla í þá gryfju sem margir flokksfélagar hans hafa grafið sig djúpt í við þessa umræðu. Þess vegna vil ég endurtaka það sem ég sagði um vinnu nefndarinnar, hæstv. forseti, það var skrifað og ég er búin að tvítaka það og nú ætla ég að lesa það í þriðja sinn. Það hljóðar svo:

„Mitt mat er að nefndin hafi staðið vel og fagmannlega að þessu verki …“

Það er mitt mat, þetta sagði ég. Svo getur hv. þingmaður talað um að ég sé eitthvað að hrósa eigin ágæti en ég endurtek það sem ég sagði:

„Mitt mat er að nefndin hafi staðið vel og fagmannlega að þessu verki og ég vil nota tækifærið til að þakka samnefndarmönnum og nefndarritara óeigingjarna fundasetu og mikla vinnu við gott mál.“

Þetta sagði ég um störf nefndarinnar. Allt annað sem hv. þingmaður og fleiri flokksfélagar hans hafa verið að gera mér upp, bæði orð og skoðanir, er rangt og ég hvet hv. þingmann (Forseti hringir.) til að lesa endurrit af ræðu minni ef hann vill finna þessum ómerkilegheitum stað.