140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[12:47]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst um mengunarkvótana í Evrópusambandinu. Þeir munu óneitanlega stórhækka verð á raforku um allan heim vegna þess að meginhluti af raforku heimsins er framleiddur með brennslu kola, olíu og gass. Það verður stórhækkun á orkuverði sem mun skila sér í stórauknum tekjum af þessari auðlind, og ég fullyrði: Það er auðlind fyrir landið að þessir mengunarskattar skuli vera teknir upp. Ef þetta tvöfaldar orkuverð á Íslandi þýðir það tvöfalt verðmætari auðlind.

Varðandi verkstjórnina og það sem hv. þingmaður sagði. Ánægð með eigin verkstjórn og það væri gott, ég sagði það. Hv. þingmaður stýrði málinu í nefndinni. Hún er framsögumaður þess þannig að í raun var hún að segja: Verkstjórnin var góð. Ég lít alltaf á stjórnunina. Ef ekki er stjórnun gerist ekki neitt. Léleg stjórnun þýðir léleg vinnubrögð, góð stjórnun þýðir góð vinnubrögð. Það er mitt mat á stjórnun.

Varðandi ómerkilegheit, þá sagði hv. þingmaður um málið um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar að þar væru þingmenn Sjálfstæðisflokksins í málþófi og einn af þeim var þá enn á mælendaskrá, það var ég. (ÁI: Tveir.) Já, og annar þeirra var ég. Ég tók það til mín. (ÁI: Já.) Og mér finnst það ómerkilegt af því að ég er ekki í málþófi alla daga.