140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[12:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt. Hv. þingmaður ástundar ekki málþóf, einn af fáum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem ekki gerir það. Ég var að vísa til orða formanns Sjálfstæðisflokksins um að það hefði verið alger óþarfi að gera annað en ljúka umræðunni um raforkumálið á mánudeginum og ég var honum hjartanlega sammála, en það var ekki hægt vegna þess að tveir af hans eigin flokksmönnum voru á mælendaskrá.

Frú forseti. Ég ætla að fara aftur aðeins í ræðu hv. þingmanns. Hann kallaði eftir því að betur væri unnið að undirbúningi málsins sem við erum að ræða. Ég hefði gaman af því að vita hvað það er nákvæmlega sem hann telur að hefði átt að vinna betur, vegna þess að eins og hér hefur verið rakið hefur með óvenjulega vönduðum hætti verið safnað saman upplýsingum, gögnum, álitum, mati 19 hagsmunaaðila auk umhverfissamtaka og öll helstu áhersluatriðin hafa verið dregin saman í mjög aðgengilega skýrslu, bæði það sem er með og það sem er á móti.

Við höfum lært gríðarlega mikið af hruninu. Við höfum lært mikið af rannsóknarskýrslu Alþingis og við höfum lært mikið af vinnu þingmannanefndarinnar. Það sýnir þetta mál og þegar við berum saman undirbúning að þessu máli núna á vordögum 2012 annars vegar og hins vegar að undirbúningi að mun umfangsmeiri breytingum á Stjórnarráði Íslands á vordögum 2007 þá er það eins og svart og hvítt.

Ég geri ekki neitt sérstaklega mikið úr þessari vinnu, það er eðlilegt og sjálfsagt að við höfum unnið eins og gert hefur verið núna. En það er undarlegt hvað það er mikið vandamál fyrir Sjálfstæðisflokkinn og einstaka þingmenn Framsóknarflokksins að viðurkenna það sem vel er gert og sýna smávegis sanngirni.