140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[12:57]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er nefnilega margt skrýtið í þessu máli og það hefur beinlínis komið fram að ekki er búið að gera ráð fyrir einhverju skipulagi eða plana hvar undirstofnanir koma undir þessi nýju ráðuneyti. Það liggur klárt fyrir. En þetta er alveg í samræmi við þessa ríkisstjórn og líklega gerir hún þetta af ráðnum hug til að halda öllu í einhverri óvissu. Það má líka nefna þá skýrslu eða úttekt sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir var að lýsa áðan og sem liggur núna hér til grundvallar og til umræðu í þessari umferð, hún var búin að berast ríkisstjórninni fyrir löngu. Hvers vegna var hún ekki höfð sem fylgiskjal með þessari þingsályktunartillögu til að reyna þó að byggja undir hana og gera hana vandaðri?

Þetta eru svo dæmalaus vinnubrögð og það er svo sorglegt að horfa upp á hvernig ríkisstjórnarmeirihlutinn getur vaðið áfram án þess að menn fái rönd við reist. Til dæmis það að hér vantar lagaskrifstofu Alþingis. Ef búið væri að koma henni á fót væri þessi ríkisstjórn löngu fallin, því að hún hefur komið með þannig mál inn í þingið sem hafa beinlínis átt heima í pappírstætaranum.

Svo er komið fram með það að þessu skuli breyta, eins og hv. þingmaður fór yfir, og einhver frontur settur fram. Það kom fram í máli hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur í gær að loksins væri stefnumið Vinstri grænna komið á dagskrá þingsins og væri að verða að veruleika, að umhverfismál og auðlindamál yrðu í einu ráðuneyti. Hér er verið að gefa Vinstri grænum lausan tauminn, líklega til að Samfylkingin fái að halda áfram með ESB-umsóknina. Þetta eru ekkert nema umbúðirnar, þetta er eins og pakki í jólapappír. Ný ráðuneyti eru sett á stofn og ekkert hugsað um á hvaða leið menn eru, (Forseti hringir.) hvert undirstofnanir eigi að fara, (Forseti hringir.) hvað verði um auðlindamálin okkar eða hvað sem er.