140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[12:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er einmitt tækifæri sem ég held að ríkisstjórnin hafi misst af. Kannski var hún ekki undir það búin vegna innbyrðis deilna, kannski liggur ekki fyrir hvernig auðlindaráðuneytið á að starfa. Ég óttast einmitt að menn nái ekki samstöðu um þetta mál. Þetta samstöðuleysi er farið að verða dýrt fyrir þjóðina, mjög dýrt. Meira að segja umsóknin um Evrópusambandið, þar vill einn flokkurinn í eina átt og hinn í aðra, einn vill inn og hinn vill ekki inn. Þetta liggur fyrir. Þetta er opinber stefna í tvær áttir. Og til dæmis varðandi auðlindanýtinguna þá kemur rammaáætlun fram en menn eru greinilega ekki sáttir við hana. Ég óttast því að þjóðin líði fyrir að hér er engin greinileg stefna. Það sem þjóðin þarf að gera í næstu kosningum er að kjósa greinilega stefnu þar sem segir: Það á að virkja þetta mikið, við ætlum að hafa þetta í verndarflokki o.s.frv. Auðlindaráðuneytið á að sjá um þennan þátt, atvinnuvegaráðuneytið á að sjá um til dæmis Landsvirkjun, þá liggur fyrir að hún muni vinna fyrir atvinnulífið og almenning í landinu því þar er beint samhengi á milli; aukin atvinna vegna þess að það er virkjað, verðmætari auðlind og meiri arður. En þetta er allt saman óljóst og mér finnst virkilega sorglegt að hæstv. ríkisstjórn hafi misst af því tækifæri að koma með góða mynd af ráðuneytinu eins og það á að líta út. Þá yrði miklu fljótlegra að koma því í framkvæmd.