140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[14:21]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir ræðuna. Við skulum átta okkur á að hér fer maður með mikla reynslu því að viðkomandi þingmaður sat um skeið sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra enda hefur hann mjög margar athugasemdir við þessa þingsályktunartillögu sem ekki er nema von, en þetta mál er keyrt áfram eins og við vitum.

Þingmaðurinn hafði margar spurningar til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, þeirrar nefndar sem ég sit í, en mér sýnist að formaður nefndarinnar fari í andsvör á eftir og ég læt henni eftir að svara þeim spurningum enda á ég ekki að vera hér til að rökstyðja og svara fyrir þingsályktunartillöguna, heldur hinn naumi stjórnarmeirihluti sem er í þinginu.

Rétt er að benda á að í svona stóru máli situr enginn ráðherra í salnum. Hæstv. forsætisráðherra lét sjá sig í morgun en síðan hefur ekkert sést til hennar sem er mjög einkennilegt því að þetta mál hefur hún meðal annars sett á oddinn.

Mig langar til að spyrja þingmanninn Einar K. Guðfinnsson aðeins út í sameinað umhverfis- og auðlindaráðuneyti sem er boðað í þingsályktunartillögunni. Í þeirri ágætu skýrslu sem var afhent í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í byrjun vikunnar, sem hefði svo gjarnan mátt vera fylgiskjal með þingsályktunartillögunni, koma fram til dæmis miklar athugasemdir við sameinað umhverfis- og auðlindaráðuneyti frá Samorku þar sem samtökin hafa efasemdir um að rannsóknir og stjórnun auðlinda sé á sömu hendi og stofnanir og málsvarar þessara auðlinda og það komi til með að skarast á við hagsmuni náttúrunnar og að sami ráðherra geti tæpast stýrt rannsóknum og stýringu á auðlindunum annars vegar og skipulagsmálum og mati á umhverfisáhrifum hins vegar, og benda á að þarna skarist þessir hagsmunir. Hvaða álit hefur þingmaðurinn á þessu?