140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[14:24]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa spurningu. Ég tel að í sjálfu sér geti það verið þannig að rannsóknir og stjórn auðlinda sé undir sama hatti, t.d. undir sama ráðuneyti. Ég tel að það sé út af fyrir sig ekki rangt og það eru ein rökin að mínu mati fyrir því til dæmis að við séum með Hafrannsóknastofnunina undir atvinnuvegaráðuneytinu nýja en ekki undir umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Hins vegar blasir við að eins og við sjáum þetta, og hv. þingmaður rakti hér í athugasemdum frá Samorku, að það getur auðveldlega orðið um að ræða hagsmunaárekstra þegar við höfum þetta þannig að annars vegar séu rannsóknir og stjórn auðlindar undir einu ráðuneyti og undir því sama komi síðan skipulag og mat á umhverfisáhrifum. Þar getum við auðveldlega farið að sjá einhverja hagsmunaárekstra. Ég tel að við höfum núna sett mikinn lagabálk um mat á umhverfisáhrifum. Ég hef að vísu mínar efasemdir um ýmislegt í þeirri lagasetningu en látum það liggja á milli hluta. Sú lagasetning tryggir engu að síður mjög náttúruverndarhagsmunina og mér finnst til dæmis að í umræðunni sem fór fram um rammaáætlun á dögunum gæti ákveðinnar vantrúar gagnvart þeirri löggjöf sem við höfum sett um mat á umhverfisáhrifum þannig að menn hafi einhvern beyg af því að hlutir fari í nýtingarflokk af því að það leiði síðan til þess að menn fari að níðast á náttúrunni. Ég tel einmitt að löggjöfin um umhverfismatið eigi að tryggja að svo verði ekki gert.

Það sem ég hef hins vegar miklar efasemdir um og spyr mig mjög um — ég hafði nú ekki tök á að nefna það hérna — er hvernig aðkoma umhverfis- og auðlindaráðuneytisins er útskýrð, hver hún eigi að vera í því hvernig við stöndum að nýtingu auðlindarinnar. Sagt er að það eigi að gerast í samstarfi við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti en það er hins vegar ekkert skýrt. Mér finnst það vera einnar messu virði að velta því dálítið betur fyrir sér.