140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[14:35]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alltaf gaman að snúa út úr fyrir fólki. Auðvitað er ég ekki að gera forsætisráðherra afturreka í einu eða neinu en ef breyta á lögum um stofnanir þá verður náttúrlega að gera það, en hvar þær heyra til og hvenær það verður gert er ljóst að þarf ekki að gera með þessari þingsályktunartillögu.

Ég er líka ósammála þingmanninum um að allt fari þetta til verri vegar. Ég held að það sé einmitt gott að vera búin að losa um það hvernig ráðherraskipan er í landinu. Ég held að þessi óskaplega viðkvæmni manna fyrir að vera ráðherrar eða ekki ráðherrar þannig allt ætlar um koll að keyra út af því sé nokkuð sem er best að venja fólk af. Þess vegna þarf kannski að hafa þetta fyrirkomulag á til að hægt sé að losa þar um.

Mig langar aðeins að fara út í byggðamálin sem þingmaðurinn spurði um. Eftir því sem ég veit best, og ég vona að ég sé ekki að gera einhvern afturreka með það, þá er ætlunin að þau heyri undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti sem mér finnst reyndar liggja í augum uppi.

Ég ætla ekki — kannski út af því að ég hef ekki mikinn tíma — að fara út í útúrsnúninga þingmannsins út af þessu stjórnarskrárbroti sem hann talaði um, sem var ekki stjórnarskrárbrot heldur snerist um að þegar þetta yrði samþykkt yrði gefinn út forsetaúrskurður um það hvernig ráðuneytum yrði skipað.