140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[14:37]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er misskilningur að það hafi verið einhver útúrsnúningur af minni hálfu þegar ég var að vísa til orða hæstv. forsætisráðherra. Hæstv. forsætisráðherra sagði mjög skýrt og skorinort, með leyfi forseta, enn og aftur:

„Það er í raun í andstöðu við stjórnarskrána“ — þessi þingsályktunartillaga sem hún var að vísa til — „sem segir að forseti ákveði tölu ráðherra og skipti störfum með þeim.“

Hæstv. ráðherra lýsti því sem sagt yfir að tillagan sem hún væri að flytja væri í andstöðu við stjórnarskrána. Mér finnst þetta vera mikil tíðindi, stórtíðindi, en mér finnst það líka áhyggjuefni af hve mikilli léttúð menn taka því, bæði í þingsölum og í almennri umræðu í samfélaginu, þegar hæstv. ráðherra kveður upp úr um þetta.

Í öðru lagi segir hv. þingmaður að byggðamálin eigi að heyra undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Það er gott að heyra það. Ég geri út af fyrir sig engan ágreining um það. Ég held að það sé rökrétt fyrirkomulag en það hefði þá líka þurft að gera grein fyrir því.

Úr því að það er niðurstaðan að ekki verði gert eins og hæstv. forsætisráðherra fullyrti í fyrri umræðu, að flytja sérstakt frumvarp sem lúti að stofnanauppbyggingu heldur verði málið bara kynnt með einhverjum öðrum hætti, þá hefði verið eðlilegt að gera það í þessari þingsályktunartillögu. Það sem verið er að gera í þessari þingsályktunartillögu er að marka mjög óljósan ramma sem ekki er fyllt út í með t.d. stofnanauppbyggingu að öðru leyti.

Ég nefndi hvað hefði tekið langan tíma að fá upplýsingar um Hafrannsóknastofnun. Ég er búinn að kalla eftir upplýsingum um aðra stofnun sem skiptir líka miklu máli. Ég tel að ef menn beita rökrænni nálgun og segja að eðlilegt sé að Hafrannsóknastofnun sé undir atvinnuvega- og auðlindaráðuneyti þá hljóti Veiðimálastofnun að eiga þar heima líka. Ég spurði hvort það væri rétt sem fullyrt hefði verið á opinberum vettvangi, að sú stofnun ætti að fara yfir í umhverfisráðuneytið nýja. Verði svo þá blasir við að hér er um að ræða sárabætur fyrir þá sem ekki náðu því fram að setja Hafrannsóknastofnun undir auðlinda- og umhverfisráðuneyti.