140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[14:49]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu sem fram er komin eftir tiltölulega nýlegar lagabreytingar þar sem gert er ráð fyrir því að þegar breytingar eru gerðar á Stjórnarráðinu skuli lögð fram til staðfestingar á þeim breytingum tillaga til þingsályktunar sem rædd er á Alþingi. Þetta er rakið ágætlega í kaflanum Meginmarkmið í athugasemdakafla tillögunnar.

Ég hygg að það hafi verið skynsamleg ráðagerð að gera ráð fyrir því að þingið hefði málið til umsagnar. Þar hefur hugsunin án nokkurs vafa verið sú — og það er auðvelt að fletta því upp, mig rekur minni til þessarar umræðu — að hæstv. forsætisráðherra mundi gera þinginu grein fyrir því í formi tillögunnar og undir umræðum hvað stæði til að gerðist innan ráðuneytanna í framhaldi af slíkum breytingum. Ég verð að segja að þegar maður les þessa tillögu og síðan nefndarálitin þá þykir mér skorta þó nokkuð á að færð séu fram rök fyrir þeim breytingum sem hér er verið að mæla fyrir og eins líka skýringar á því til dæmis hvaða verkefni og hvaða stofnanir muni falla undir þau ráðuneyti sem verið er að fjalla um. Þetta finnst mér að sé tekið ágætlega til umfjöllunar í nefndaráliti minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Í upphafi þessa kjörtímabils lá ríkisstjórninni mjög mikið á að koma á fót sérstöku ráðuneyti efnahagsmála og var þá brugðið til þess ráðs að setja saman efnahags- og viðskiptamálin sem höfðu verið í sérstöku ráðuneyti sem vel má færa rök fyrir að hafi verið tiltölulega lítið og fábrotið í samanburði við önnur. Það hefur lengi einkennt Stjórnarráðið hve mikill munur er á stærð og afli einstakra ráðuneyta, sama hvort maður horfir til starfsmannafjölda eða einfaldlega til fjárlaga. Þar hefur velferðarráðuneytið, sem tiltölulega er nýstofnað, borið höfuð og herðar yfir önnur ráðuneyti og mér finnst að það ætti að vera hluti umræðunnar hér, þó að ekki sé sérstaklega verið að snerta við velferðarráðuneytinu, að velta því fyrir sér hvort það hafi verið breyting sem hafi tekist vel, ekki síst í ljósi þess hversu gríðarlega miklum fjármunum er varið á fjárlögum í gegnum það ráðuneyti. Með einungis einn ráðherra í því ráðuneyti, sem sagt yfir þeim fjölmörgu málaflokkum sem þar er við að glíma, er engum vafa undirorpið að völd embættismannanna í ráðuneytinu hafa vaxið stórum. Það er einfaldlega ekki hægt að gera ráð fyrir því að einn ráðherra hafi sömu yfirsýn í jafnstóru ráðuneyti og þar hefur verið skapað og í hinum minni.

Sömu vangaveltur eiga að nokkru leyti við um þau ráðuneyti sem hér stendur til að búa til, eins og til dæmis í atvinnuvegaráðuneytið. Ef við horfum til dæmis til sjávarútvegs- og landbúnaðarmála hefur því verið fyrir komið með ýmsum hætti í gegnum tíðina hvort landbúnaðarmálin hafa farið með öðrum málaflokkum en síðustu ár hefur þeim verið komið fyrir með sjávarútvegsmálunum. Kannski var það fyrsta skrefið í átt til þess að færa atvinnuvegina saman undir einn hatt og á þeim tíma sem það skref var stigið voru iðnaðarmálin áfram í sérstöku ráðuneyti. En ég held að það sé engum vafa undirorpið, þegar maður skoðar tengsl ráðherranna við atvinnuvegina, að það hefur verið eitt af einkennismerkjum stjórnmála á Íslandi hversu góðum tengslum til dæmis landbúnaðarráðherra hefur almennt verið í við þá atvinnugrein. Ég held að það sama megi segja um sjávarútvegsráðherra sem hefur verið eins og höfuð ríkisstjórnarinnar í þeim mikilvæga málaflokki. En eins og rakið er í nefndaráliti minni hlutans er full ástæða til að velta því fyrir sér hvort þessi ríku tengsl við landbúnaðinn annars vegar og sjávarútveginn hins vegar muni fá annað yfirbragð og færast í auknum mæli yfir á herðar embættismanna þegar búið er að skapa stórt atvinnuvegaráðuneyti þar sem inn koma bæði iðnaðarmálin og fleiri málaflokkar sem tengjast ýmsum smærri málum sem vistuð hafa verið annars staðar.

Í því sambandi er líka nærtækt að horfa til hinna breytinganna sem verið er að gera. Þó það eigi kannski ekki við með nákvæmlega sömu rökum í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu þá er þar um að ræða ákveðið gat í rökstuðningi fyrir breytingunni vegna þess að það virðist ekki koma nægilega fram, hvorki hjá nefndinni, sem reyndar hefur fengið afskaplega skamman tíma eins og fyrir liggur, né í tillögunni sjálfri, nákvæmlega í hvaða mæli nýtingarmál auðlindanna munu verða vistuð í umhverfisráðuneytinu. Þar munu vegast á í framtíðinni, nái þessi breyting fram að ganga, umhverfis- og nýtingarsjónarmið í einu og sama ráðuneytinu. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að mér finnst það sjálfsögð krafa að gerð sé grein fyrir því í umræðunni, og hún kláruð, hvernig menn sjá þetta fyrir sér og að það sé kynnt áfram nákvæmlega hvaða verkefni eiga að flytjast til umhverfisráðuneytisins með auðlindamálunum, þ.e. þeim þætti þeirra sem eiga að fara til umhverfisráðuneytisins. Mig undrar að ekki skuli hafa verið orðið við þessu undir umræðunni eða að ekki hafi verið gengið eftir þessu við nefndarstörf. Það er kannski vegna þess að menn gáfu sér ekki nema örfáa sólarhringa til að vinna málið til fulls í nefndinni en eins og svo mörg önnur mál sem ríkisstjórnin hefur lagt fram á þessu vori þá kom þetta mál afskaplega seint inn í þingið.

Um fjármála- og efnahagsráðuneytið má segja líka að þau rök eru helst tínd til í tillögu til þingsályktunar að menn hafi áttað sig á því, þegar búið var að skapa eitt atvinnuvegaráðuneyti og styrkja umhverfisráðuneytið með því að færa ákveðin auðlindamál þangað, að eftir stæði tiltölulega veikburða efnahags- og viðskiptaráðuneyti, að minnsta kosti í hlutfallslegri stærð borið saman við önnur ráðuneyti. Þá þurfti að grípa til einhverra ráða og þau ráð, eins og þau eru kynnt hér, eru að renna efnahagsmálunum saman við fjármálaráðuneytið.

Þegar saga efnahagsráðuneytisins er skoðuð á þessu kjörtímabili þá finnst manni hafa verið býsna mikill hringlandaháttur með það ráðuneyti. Fyrst er lagt upp með það í stjórnarsáttmála að gera efnahagsmálunum sérstaklega hátt undir höfði með því að koma þeim fyrir í sérstöku ráðuneyti. Eflaust hefur sú hugmynd litast mjög af ástandinu í þjóðfélaginu og því að við vorum að ganga í gegnum mjög mikla efnahagserfiðleika og háværar raddir voru uppi um að efnahagsmálum almennt hefði ekki verið gefinn nægilegur gaumur — oft nefnt í þeirri umræðu og í því samhengi að það hafi verið óráð á sínum tíma að hafa ekki Þjóðhagsstofnun til halds og trausts á tímum sem þeim sem við vorum þá að upplifa. Nú eru að koma fram hugmyndir um að endurvekja hana en það mætti svo sem leysa það mál með margvíslegum öðrum hætti. Eina hugmynd viðraði ég á vormánuðum ársins 2009, um að leita til háskólasamfélagsins til samstarfs um rekstur á slíkri stofnun, þar sem fjármálastofnanir í landinu og fleiri gætu jafnvel lagt lið með fjárhagslegum stuðningi. Slík stofnun væri þá líka til taks fyrir þingið til að leita til, t.d. til að leggja mat á efnahagsleg áhrif fjárlagafrumvarps eða annarra hugmynda sem fram koma eða taka út stöðu á fjármálamarkaði á hverjum tíma. En hvað sem þeirri umræðu líður, um slíka stofnun, þá var það kynnt sem sérstök hugmynd, sem varð síðan að veruleika, að koma á fót sérstöku efnahagsráðuneyti.

Ég man vel eftir því að menn lögðu svo þunga áherslu á þetta að þetta voru talin vera mjög mikil tímamót og menn sögðust vera að draga lærdóm af því sem hér hefði gerst með því að stíga þetta skref. En með þessu skrefi voru efnahagsmálin í raun og veru tekin frá forsætisráðuneytinu. Þar höfðu þau fyrst og fremst verið og forsætisráðuneytið hafði sem sagt verið með eins konar yfirumsjón með efnahagsmálum í landinu. Ef sá stóri málaflokkur, sú mikla ábyrgð sem fylgdi því að hafa yfirumsjón með efnahagsmálum, væri farinn frá forsætisráðuneytinu vöknuðu eðlilega þær spurningar hvað væri þá helst eftir þar. Það fengust lítil svör við því. Fyrst og fremst var lögð áhersla á að forsætisráðuneytið ætti að vera eins konar verkstjórnarráðuneyti.

Hér er kynnt í annað skiptið á þremur árum sú hugmynd að koma efnahagsmálunum aftur fyrir á nýjum stað. Það virðist hvergi hafa komið til álita að færa þau aftur undir forsætisráðuneytið, eins og verið hefur með ágætisárangri í langan tíma, heldur er kynnt til sögunnar sú hugmynd að færa efnahagsmálin saman við fjármálaráðuneytið.

Þegar þessar breytingar allar hafa verið gerðar — ég ætla reyndar að láta þess getið áður en ég fer út í það að ég tek eftir því sem segir í tillögunni að fordæmi eru fyrir því að hafa efnahagsmálin saman með fjárlagagerð á öðrum Norðurlöndum. En þó að taflan sem birtist á bls. 5 í þingskjalinu sé út af fyrir sig ágæt svo langt sem hún nær þá skortir algerlega á að gerð sé grein fyrir því hvar einstakar stofnanir og einstök verkefni eru vistuð í þessum löndum og hvaða önnur ráðuneyti eru þar að störfum, hver hlutfallsleg stærð þessa ráðuneytis er í samanburði við önnur o.s.frv. Þetta er því afskaplega mikil skemmri skírn í því að færa rök fyrir þessari breytingu.

Með þessari breytingu er verið að færa — eins og segir á bls. 5 í þingskjalinu, með leyfi forseta:

„Í ljósi þeirrar greiningar sem gerð var þykir skynsamlegt og faglega rétt að verkefni sem tengjast hagstjórn séu færð frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti til fjármálaráðuneytisins og að heiti þess verði breytt í fjármála- og efnahagsráðuneyti. Með því yrði sú hagstjórn sem nú er í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, þar með talin málefni Seðlabanka Íslands, sameinuð mikilvægu efnahagslegu hlutverki sem fjármálaráðuneytið hefur gegnt“ o.s.frv.

Gott og vel. Þetta er verið að gera. Það er sem sagt verið að komast að niðurstöðu um það hvar yfirstjórn og eftirlit og umsjón með Seðlabankanum eigi að vera í stjórnsýslunni. En á sama tíma er ríkisstjórnin að hefja vinnu við að meta framtíð fjármálageirans í landinu, vinnu sem nýverið var kynnt að ráðast ætti í í framhaldi af skýrslu um framtíð fjármálamarkaðarins. Við vitum í sjálfu sér ekkert um það hvaða meginniðurstöður munu birtast eftir að þeirri vinnu lýkur, t.d. um það hvernig samþætta megi betur og tryggja yfirsýn á einum stað með þeirri kerfislægu áhættu sem er að finna í íslenska fjármálageiranum. Nú er það ein af helstu niðurstöðum skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að göt hafi verið í eftirlitskerfunum, að Seðlabankinn hafi haft tilteknu hlutverki að gegna við eftirlit með fjármálakerfinu en hafi ekki haft sama aðgang og Fjármálaeftirlitið hafði til að átta sig á stöðunni. Fjármálaeftirlitið hafi á móti gegnt ákveðnu hlutverki og talið að Seðlabankinn væri að sinna öðru. Þarna var búið að byggja upp einhvers konar kínamúra sem augljóslega voru mjög til trafala þegar verið var að meta heildaráhættu kerfisins í aðdraganda þess að bankarnir féllu.

Ég nefni sem dæmi erfiðleika Seðlabankans við að átta sig á útlánaáhættu í kerfinu. Um það er hægt að lesa í rannsóknarskýrslunni að Seðlabankinn hafði einfaldlega ekki upplýsingar, sem hann taldi þó mikilvægar og sóttist eftir að fá, til að byggja vaxtaákvarðanir sínar á og ekki bara þær heldur líka aðra mikilvæga þætti sem horfa til dæmis að bindiskyldu og lánveitingum inn í bankakerfið og annarra slíkra þátta, endurfjármögnunar bankakerfisins og fleira sem lýtur að grunnhlutverki Seðlabankans í að þjónusta fjármálageirann.

Ef við horfum síðan til þess hvaða fordæmi nýfallinn landsdómur hefur sett, hvaða lærdóm við getum dregið af þeim dómi sem þar féll, hlýtur að vera nærtækt að segja að á herðar forsætisráðuneytisins falli töluvert mikil ábyrgð og miklar skyldur við að fleyta upplýsingum á milli ráðuneyta sem varða kerfið í heild sinni. Ég held að ekki sé hægt að komast að annarri niðurstöðu þó enn eigi eftir að túlka niðurstöðu dómsins betur af fræðimönnum og brjóta rökstuðninginn til mergjar. Maður spyr sig vegna þess, sem ég tel að sé nokkuð óumdeilt að sé meðal helstu niðurstaðna dómsins, þ.e. þetta verkstjórnarhlutverk forsætisráðuneytisins eða samþættingarhlutverk, hversu skynsamlegt það er þá að vera að dreifa stofnunum sem snerta fjármálamarkaðinn, koma þeim fyrir með þessum breytingum á ólíkum stöðum áður en þessi skýrsla er komin fram. Maður spyr sig jafnframt: Er forsætisráðuneytið tilbúið til að fylgja því eftir? Hafa verið gerðar ráðstafanir í forsætisráðuneytinu til að bregðast við því hlutverki sem halda má fram að undirstrikað sé að ráðuneytið hafi í þeim landsdómi sem nú er nýfallinn og setur hreinlega refsiábyrgð á forsætisráðherrann sé því samþættingarhlutverki ekki fylgt eftir?

Þetta eru stórar spurningar sem mér finnst miður að við getum ekki farið dýpra í. Það er vegna þess að mikið skortir á að í málinu sjálfu sé farið yfir einstök verkefni og einstakar stofnanir og gerð grein fyrir því hvar þær verði vistaðar eða hvar verkefnunum verði sinnt. Það er líka vegna þess hvernig málsmeðferðin er. Tillagan kemur fram 30. mars, fyrri umræða var 17. apríl, fyrsti fundur nefndarinnar var haldinn 24. apríl og málið var afgreitt þremur dögum síðar án þess að svör fengjust við þessum sjálfsögðu spurningum. Þetta er þriggja daga meðferð í nefnd. Þetta er ástæðan fyrir því að við stöndum hér og spyrjum okkur spurninga og köllum eftir svörum. Það er vegna þess að hvorki þingmálið né málsmeðferðin í nefndinni hefur fyllt upp í þau göt sem málinu fylgja.