140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[15:12]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Jú, ég get tekið undir það að maður hafði fyrir fram gert ráð fyrir því að svona stórar sameiningar mundu skila augljósari hagræðingu en raun ber vitni. Ég tek eftir því að í frumvarpinu er talað um fjölda skrifstofustjóra, það sparast einn bílstjóri hér og kannski einn ráðuneytisstjóri þar, allt mun það ganga til baka ef verður af þeim hugmyndum sem þingmaðurinn nefnir að ráðherrum verði fjölgað aftur innan ráðuneytanna. Ég átta mig reyndar ekki alveg á því hvernig það ætti í raun og veru að vera, þ.e. hvort þá yrðu tveir ráðherrar í sama ráðuneyti, jafnsettir, eða hvort þetta yrði eins konar aðstoðarráðherrafyrirkomulag sem ég hef ekki séð neinn lagafót fyrir en það er kannski umræða sem bíður framtíðarinnar.

Hitt er það að ef menn eru að leita eftir sparnaði umfram annað en ekki því að efla einhverjar stjórnsýslueiningar þá held ég að hægt sé að ná miklu meiri sparnaði með annars konar aðgerðum, t.d. með því að fækka ríkisstofnunum. Reyndar hefur verið nokkuð um sameiningar, ekki bara í tíð þessarar ríkisstjórnar. Ef yfir lengra tímabil er horft hafa nokkrar ágætar sameiningar átt sér stað og ég hygg að við það hafi þær styrkst og þar hafi náðst fram hagræðing.

Síðan eru líka alveg óendanlega margar stjórnsýslunefndir að störfum, sem er nokkuð sem ég held að sé algerlega úr sér gengið, þ.e. það er farið að nálgast hundraðið held ég, stjórnsýslunefndirnar sem eru að störfum út og suður í kerfinu þannig að víða annars staðar er hægt að drepa niður fæti en með því að sameina ráðuneyti. Til að svara þessu beinna þá tek ég undir það með hv. þingmanni, ég hefði viljað sjá skýrar gert grein fyrir því hver sparnaðurinn af þessu er.